Innlent

Svæðið á Mýrum vaktað í nótt

Enn logar í glóð í gróðri á Mýrum og munu menn standa vaktina næstu daga til að koma í veg fyrir að eldur brjótist út að nýju. Eyðileggingin sem blasir nú við á Mýrum er gríðarleg eftir þennan stærsta sinubruna Íslandssögunnar. Slökkviliðsmenn segja mildi að eldurinn hafi ekki borist í byggð í Borgarfirði og þakka það jarðýtu að sú varð ekki raunin.

Eldarnir á Mýrum hófust á fimmtudag og síðan þá hafa slökkviliðsmenn, bændur og aðrir björgunarmenn staðið í ströngu dags og nætur en þegar mest var voru um sjötíu menn að berjast við eldana. Í gærkvöldi var öll áhersla lögð á að koma í veg fyrir að eldur bærist yfir Álftá. Það var svo rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi sem mönnum tókst loks að ná tökum á eldhafinu.

Í gærmorgun var talið að búið væri að slökkva eldana á Mýrum þegar hann svo blossaði upp á ný. Menn létu þó ekki bugast. Það er ótrúlegt að fara um landsvæðið sem varð eldunum að bráð á Mýrum. Varla eitt stingandi strá á lífi. Hátt í annað hundrað ferkílómetrar af gróðri brunnir. Slökkviliðsmenn frá Borgarnesi munu vakta svæðið í nótt til að reyna að koma í veg fyrir að glóð geti læst sig í þeim gróðri sem enn lifir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×