Innlent

Þarf að varna því að eldar blossi upp aftur

Tekist hefur að ráða niðurlögum eldanna á Mýrum. Enn er þó vel fylgst með svæðinu þar sem víða er glóð í skurðbökkum. Það var rétt fyrir miðnætti í gærkvöld sem loks tókst að slökkva síðustu eldanna á Mýrum. Slökkvilið frá Reykjavík, Akranesi, Borgarfirði og Borgarnesi barðist allan daginn við elda sem gusu upp aftur síðdegis en talið hafði verið að búið væri að ráða niðurlögum eldanna.

Auk slökkviliðsmanna börðust björgunarsveitarmenn frá sex björgunarsveitum við eldana sem og bændur og aðrir sjálfboðaliðar með haugsugur að vopni. Þá var þyrla Þyrluþjónustunnar kölluð til og jós hún vatni yfir svæðið.

Eldurinn tók sig upp á nýjan leik eins og fyrr segir síðdegis í gær þegar hvessti skyndilega og glóð fauk í nærliggjandi móa. Nú reyna menn að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig og er svæðið rækilega vaktað þar sem víða er glóð í skurðbökkum og lítið þarf til að eldar blossi upp á nýjan leik. Eins og sagt hefur frá í fréttum hér á NFS þá eru eldarnir á Mýrum þeir langstærstu í sögu Íslands og eru rúmlega 100 ferkílómetrar af móum og mýrum nú sviðin jörð. Áhrif vegna þeirra mun gæta í gróður og dýralífi svæðisins en rúmlega 10 þúsund mófuglapör gera sér hreiður þar á hverju ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×