Innlent

Félag járniðnaðarmanna og Vélstjórafélag Íslands sameinuð

Félag járniðnaðarmanna og Vélstjórafélag Íslands voru sameinuð í gær. Formaður Vélstjórafélagsins segir þetta gert því félagsmenn séu í mörgum tilvikum með sama bakgrunn og starfi á sömu vinnustöðum.

Bæði Vélstjórafélag Íslands og Félag járniðnaðarmanna eru gamalgróin. Hið fyrrnefnda var stofnað árið 1909 og hið síðarnefnda árið 1920. Sameiningin hefur staðið til í nokkurn tíma og lauk kosningu og talningu atkvæða seinnipartinn í gær.

Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands, telur að með sameiningunni verði til eitt sterkt félag í staðinn fyrir tvö minni. Að mörgu leyti þá séu félagsmenn þessara félaga svipaðir en þeir séu mikið til með sama bakgrunninn og starfi á svipuðum vinnustöðum.

Aðilar að félögunum tveimur eru um 4.000 talsins. Hjá járniðnaðarmönnum samþykktu tæplega 93% þeirra sem greiddu atkvæði sameininguna en hjá vélstjórum sögðu 54% já en 44% nei. Það vekur óneitanlega athygli að mun mjórra var á á munum hjá vélstjórum. Helgi telur að þetta sé vegna þess að sjómennirnir séu svolítið hræddir um að þeirra hlutur verði afskiptur þegar þeir komi inn í svo stórt félag. Allt verði hins vegar gert til að tryggja hagsmuni þeirra.

Helgi segir að stofnfundur hins nýja félags verði haldinn í lok maí þar sem kosið verði í stjórn auk þess sem finna þurfi nafn á hið sameinaða félag en ekkert sé farið að skoða hvaða nöfn komi til greina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×