Innlent

Álver í Helguvík á fleygiferð

Viðræður um að flýta smíði álvers í Helguvík eru komnar á fulla ferð með þátttöku Orkuveitu Reykjavíkur. Það gerist þrátt fyrir andstöðu vinstri grænna í meirihlutasamstarfi í borgarstjórn Reykjavíkur.

Verkalýðsfélög á Suðurnesjum skoruðu í dag á Orkuveituna að koma að verkefninu. Búist er við að það skýrist í næstu viku hver þáttur Orkuveitunnar geti orðið í rafmagnssölu til álversins.

Forsvarsmenn Norðuráls funduðu í dag með fulltrúum Reykjaneshafnar og Reykjanesbæjar um lóð og hafnaraðstöðu vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Þá tilkynnti Skipulagsstofnun í dag að formleg vinna við umhverfismat allt að 250 þúsund tonna álvers í Helguvík væru hafin.

Ljóst er að þáttaka Orkuveitu Reykjavíkur gæti ráðið úrslitum um hvort tekst að flýta framkvæmdum. Að sögn stjórnarformanns hennar, Alfreðs Þorsteinssonar, mun hann leggja það til við stjórnina á morgun að forstjóra verði falið með formlegum hætti að ganga í málið.

Stærstu verkalýðsfélög Suðurnesja skoruðu í dag á stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að koma að raforkuöflun vegna álvers. Alfreð Þorsteinsson segir að eftir viku til tíu daga ætti að liggja fyrir hvort unnt sé að verða við ósk um að útvega raforku til álversins.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×