Innlent

Frumvarp um hlutafélagsvæðingu RÚV úr nefnd í dag

Það kom til átaka í menntamálanefnd Alþingis í dag er meirihlutinn hafnaði kröfu minnihlutans um að ræða frumvarp um Ríkisútvarpið samhliða nýju fjölmiðlafrumvarpi. Málinu hefur verið vísað úr nefnd þrátt fyrir bullandi ágreining. Fulltrúi vinstri grænna segir nauðsynlegt að ræða málin í samhengi.

Kolbrún Halldórsdóttir, fulltrúi vinstri grænna í menntamálanefnd er afar ósátt við vinnubrögð nefndarinnar sem hafnaði í dag að ræða frumvarp um ríkisútvarpið samhliða nýju fjölmiðlafrumvarpi.Hún segir að í fjölmiðlafrumvarpinu séu veigamikil atriði sem komi til með að eiga við um RÚV líka. Sér í lagi sjálfstæði ritstjórna. Þá segir hún nýtt frumvarp um ríkisútvarpið mistök og vill halda núverandi rekstrarformi þess í þágu menningar og almannaþjónustu, öryggis og lýðræðis. Hún villl viðhalda sérstöðu RÚV.

Kolbrún bætir því við að það fjársvelti sem stofnunin hefur búið við til þessa leiði til þess að nýtt félag byrji í mínus.

Formaður menntamálanefndar Sigurður Kári Kristjánsson segir óþarfa að ræða frumvarpið um rúv og fjölmiðlafrumvarpið samhliða. Frumvarp um að gera RÚV að hlutafélagi verði afgreitt frá Alþingi innan tíðar hvað sem tautar og raular.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×