Innlent

Svar Bush um varnir Íslands rýrt að mati forsætisráðherra

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, segir í bréfi til íslenskra stjórnvalda að Bandaríkjastjórn muni virða varnarsamning þjóðanna, þótt til standi að draga stórlega úr starfsemi varnarliðsins. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, segir fátt nýtt felast í svari Bandaríkjaforseta og að varnarsamningur án varnarliðs sé lítils virði.

Sendiherra Bandaríkjanna gekk á fund forsætisráðherra seint í gær og afhenti honum svar Bandaríkjaforseta við fyrirspurn íslenskra stjórnvalda um hvernig Bandaríkjamenn hyggjast tryggja varnir Íslands.

"Þar kemur skýrt fram af hans hálfu að Bandaríkin muni virða varnarskuldbindingar við Ísland í samræmi við varnarsamninginn frá 1951," segir Halldór Ásgrímsson, "og að þeir fulltrúar hans, sem koma hingað til lands á fimmtudag, komi með tillögur um hvernig Bandaríkjamenn hyggjast hafa varnir Íslands í framtíðinni."

Sendinefnd bandarísku varnar- og utanríkisráðuneytanna mun ekki sitja lengi á rökstólum með íslensku sendinefndinni heldur fer hún aftur af landi brott á föstudag.

"Ég verð að segja það alveg eins og er, í ljósi þess sem hefur gerst, að ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn um framvindu mála, en ég virði að sjálfsögðu þetta bréf Bandaríkjaforseta."

Halldór Ásgrímsson segir að farið verði yfir tillögur Bandaríkjamanna og þær metnar í framhaldinu, en hann búist ekki við neinni niðurstöðu af fundi sendinefndanna síðar í þessari viku.

"Það er ekkert nýtt í bréfinu," segir hann, "en það eru þó skuldbindingar Bandaríkjaforseta og orð hans, við hljótum að taka þau gild, en við eigum eftir að sjá hvað í þessu felst og það má segja að það komi okkur ekkert lengur á óvart í þessu máli."

Forsætisráðherra ítrekar að varnarsamningurinn sé í húfi.

"Varnarsamningur án nokkurra varna hér á landi er lítils virði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×