Innlent

Forðaði ráðherra sér úr ráðherrastólnum vegna álits Umboðsmanns?

Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, segir fyrrverandi félagsmálaráðherra hafa forðað sér úr ráðherrastólnum til að þurfa ekki að svara fyrir ráðningu sína á ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins. Þetta kom fram í umræðum á Alþingi í dag.

Í síðustu viku skilaði Umboðsmaður Alþingis áliti sínu á ráðningu Árna Magnússonar, fyrrverandi félagsmálaráðherra, á Ragnheiði Arnljótsdóttur sem ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins fyrir tveimur árum en einn umsækjanda, Helga Jónsdóttir, kvartaði til umboðsmanns. Umboðsmaður er harðorður í áliti sínu og segir meðal annars að verulegir annmarkar séu á málsmeðferðinni.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokknsins, tók málið upp á Alþingi í dag þar sem hann sagði úrskurð umboðsmanns mikinn áfellisdóm. Jón Kristjánsson, núverandi félagsmálaráðherra, varð til svara þar sem forsætisráðherra var ekki viðstaddur umræðurnar. Hann benti á að umboðsmaður teldi ekki að þetta leiddi til ógildingu á skipan ráðuneytisstjóra. Hann myndi því að sjálfsögðu taka mið af ábendingum umboðsmanns, en sagði að þær kalli ekki á að önnur manneskja verði ráðin í starfið.

Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, kvaðst sjá tengsl á milli álits umboðsmanns á ráðningunni og þess að Árni Magnússon skyldi segja af sér sem ráðherra á dögunum. Magnús sagði að hvorki Árni né ríkisstjórnin hafi getað þolað að ráðherrann fengi á sig þennan úrskurð. Því hafi það verið sett á svið að ráðherrann þyrfti að segja af sér vegna persónulegra ástæðna og að honum hafi boðist freistandi starf innan bankageirans.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×