Innlent

Aðstæður í efnahagslífinu almennt góðar

Forráðamenn stærstu fyrirtækja landsins telja aðstæður í efnahagslífinu almennt góðar. Þetta kemur fram í nýrri könnun IMG Gallup um stöðu og horfur stærstu fyrirtækja á Íslandi. 75 prósent aðspurðra telja aðstæðurnar góðar en um 11 prósent telja þær slæmar.

Hlutfall þeirra sem telja aðstæður almennt góðar er hærra á höfuðborgarsvæðinu heldur en á landsbyggðinni eða um 80 % í höfuðborginni en um 62% úti á landi. Fleiri telja aðstæðurnar vera góðar nú heldur en þegar síðasta mæling var gerð í október 2005.

Þegar forráðamenn fyrirtækjanna eru beðnir um mat á stöðu efnahagsmála sex mánuði fram í tímann telja 17 prósent þeirra að aðstæður verði betri. Hlutfall þeirra sem telja ástandið verða óbreytt eftir sex mánuði mælist 60 % en 23  % aðspurðra telja að aðstæður muni versna.

Almennt virðast forráðamenn fyrirtækja vera svartsýnni ef horft er til næstu tólf mánaða. Þá telja um 20 prósent að aðstæður muni batna og 36 prósent að þær muni versna. Hlutfall þeirra sem telja að aðstæður eftir 12 mánuði muni versna er þó lægra en í síðustu mælingu og eru menn því ekki jafn svartsýnir og þeir voru í október. Ef borin eru saman viðhorf forráðamanna mismunandi atvinnugreina þá eru það helst fyrirtæki í sjávarútvegi sem eru almennt bjartsýnni um horfur á næstu tólf mánuðum samanborið við aðrar atvinnugreinar.

Könnunin er samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins, Samtaka atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands. Hún var gerð á tímabilinu 9. febrúar til 3. mars 2006 og voru alls 388 fyrirtæki í úrtakinu. Svarhlutfall var 68,3 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×