Innlent

Bankakreppulykt frá Íslandi segir Berlingske

Hlutabréf í íslensku bönkunum eru á brunaútsölu og bankakreppulykt leggur frá Íslandi. Þannig lýsir danskur hagfræðiprófessor ástandinu hér á landi í danska dagblaðinu Berlinske Tidende í dag.

 

Fjárfestar sjá rautt, -segir í fyrirsögn fréttarinnar. Blaðið fjallar um hinar miklu lækkanir á íslenskum hlutabréfamarkaði í gær, -sérstaklega lækkuðu bréf í viðskiptabönkunum mikið. Íslenska úrvalsvísitalan lækkaði um 4,4 %, - í næstmestu dagslækkun sögunnar, - og hefur lækkað um rúm 5% frá áramótum.

Allt er þetta í kjölfar frétta í vikunni um að bandarískir peningamarkaðssjóðir hafi sagt upp skuldabréfum íslensku viðskiptabankanna, -sem og neikvæðra frétta frá ferlendum mats- og fjármálafyrirtækjum um íslenskt efnahagslíf og stöðu bankanna.

Berlinske Tidende dregur þetta saman og segir að íslenska krónan og íslensk hlutabréf, - ekki síst í bönkunum, -hafi verið á brunaútsölu í gær. Blaðið hefur síðan eftir Jakob Bröchner Madsen á Hagfræðistofnun Kaupmannahafnarháskóla, -að fjárfestar sjái rautt. Allt þetta geti hæglega bent til mögulegrar bankakreppu á Íslandi.

Steen Jacobsen hjá Saxo bank, er hins vegar hægari í yfirlýsingum sínum við blaðið, íslenskir bankar séu ekki á leiðinni á hausinn en þeir hafi hins vegar notið allt of góðra kjara miðað við áhættu.

Danska blaðið Börsen tók hins vegar í allt annan streng í gær. Blaðið var á jákvæðum nótum og telur að íslenskt efnahagslíf muni ná að sigla á milli skers og báru og sleppa með skrekkinn frá þeim óróa sem nú er á mörkuðum.



Það var líka fjallað um Ísland og íslenksku bankanna í viðskiptablaði Lundúnablaðsins Times í morgun. Þar er vitnað til Greiningardeildar Merril Lynch, -þeirrar sem sömu og kom róti á efnahagslíf og markaði hér fyrir skemmstu, -en þar á bæ segja menn öll viðvörunarljós loga, líkt og danski hagfræðisprófessorinn heldur fram, -enda séu íslensku bankarnir allt of skuldsettir.

En aftur til danaveldis. Berlinske talar líka við sérfræðing hjá OECD, - en hann varar við verbólguskoti hér á landi og hvetur Seðlabankann til að spyrna enn fastar við fótum. Enn þurfi að hækka stýrivexti.

Undir þetta taka greiningardeildir íslensku bankanna, -telja að hækka þurfi stýrivextina um að minnsta kosti hálft prósentustig, -og þær spá því að verðbólgan geti farið hátt, - allt upp í 7 til átta prósent þegar líða tekur á árið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×