Innlent

Blandar flokkspólitík í uppsagnir

Umferð inn á svæði Varnarliðsins.
Umferð inn á svæði Varnarliðsins. MYND/Vilhelm
Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ furða sig á því að fyrsti fundur forsætisráðherra um málefni starfsmanna varnarliðsins eftir að herinn tilkynnti að hann hefði sig á brott verði haldinn á kosningaskrifstofu A-listans.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra verður ræðumaður á fundi Framsóknarflokksins annað kvöld um brotthvarf Varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli og áhrif þess á atvinnulíf á Suðurnesjum. Þetta er fyrsti fundur Halldórs með heimamönnum eftir að ljóst var að herinn væri á förum.

Viktori B. Kjartanssyni, formanni fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ finnst furðulegt að sá fundur skuli ekki haldinn á hlutlausum stað heldur á kosningaskrifstofu sameiginlegs framboðs Framsóknarflokks, Samfylkingar og óháðra kjósenda sem hyggjast fella bæjarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokks.

"Þó að í brotthvarfi varnarliðsins geti falist mörg tækifæri fyrir suðurnesjamenn er fyrsta verkefnið að aðstoða þá hundruði einstaklinga sem nú missa vinnuna," segir Viktor. "Þessir einstaklingar koma úr öllum stjórnmálaflokkum og því ekki eðlilegt að boða þetta fólk og fjölskyldur þeirra til fundar á pólitískum vettvangi. Leggja verður áherslu á þverpólitískt átak við leysa úr þessu aðkallandi verkefni ekki síst þegar áætlun um uppbyggingu á Suðurnesjum við brotthvarf varnarliðsins hefst."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×