Innlent

Árið 2006 eitt mesta framkvæmdaár Íslandssögunnar

MYND/Stöð 2

Útlit er fyrir að árið 2006 verði eitt mesta framkvæmdaár sögunnar á vegum hins opinbera þar sem gert er ráð fyrir framkvæmdum fyrir um áttatíu milljarða á árinu. Þá horfa verktakar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð fram á áframhaldandi gósentíð miðað við áætlaðar framkvæmdir á næstu árum.

Samtök iðnaðarins héldu ásamt Félagi vinnuvélaeigenda árlegt útboðsþing í janúar þar sem farið var yfir helstu útboð hins opinbera á verklegum framkvæmdum á árinu. Þar kom fram að áætlað er að ráðist verði í framkvæmdir fyrir um 82 milljarða á árinu.

Stærstu framkvæmdaaðilarnir eru Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur með 43 milljarða en mestur hluti framkvæmda þeirra snúa að virkjunum vegna álvera. Þá ræðst Vegagerðin í framkvæmdir fyrir um 13 milljarða en sú tala mun hækka í 17-18 milljarða á næstu tveimur árum. Enn fremur ráðast stærstu sveitarfélögin Reykjavík, Hafnarfjörður og Kópavogur í framkvæmdir fyrir um 19 milljarða, þar af borgin fyrir um helming fjárins.

Eyjólfur Bjarnason, byggingartæknifræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að þar sé aðeins tekið tillit til þeirra framkvæmda sem séu í hendi en ekki hugsanlegra framkvæmda vegna álvera eða slíks.

Við þetta bætast svo framkvæmdir á vegum einkaaðila. Erfiðara er að segja til um hversu miklar þær verði en heildarvelta í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð hefur tvöfaldast á síðustu þremur árum og er talin hafa numið um 150 milljörðum í fyrra.

Og það er útlit fyrir áframhaldandi uppgang á þessum vettvangi. Eyjólfur segir ekki annað í pípunum en áframhaldandi góða stöðu í mannvirkjagerð og bendir t.d. á nýtt tónlistar- og ráðstefnuhús og hátæknisjúkrahús í því sambandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×