Innlent

Tvítyngi er mannauður

Toshiki Toma er prestur innflytjenda og á sjálfur tvö japönsk-íslensk börn.
Toshiki Toma er prestur innflytjenda og á sjálfur tvö japönsk-íslensk börn. MYND/Teitur Jónasson

Tvítyngd börn eru ekki vesen í skólakerfinu, heldur mannauður til framtíðar sem við verðum að hlúa að. Þetta kom fram á ráðstefnu um tvítyngi og móðurmálskennslu í Háskóla Íslands í dag.

Toshiki Toma, prestur innflytjenda, talaði fyrir hönd félags um móðurmálskennslu tvítyngdra barna, og benti á að þegar börn lærðu annað móðurmál samhliða íslensku væri verið að rækta íslenskan mannauð, tvítyngdir einstaklingar væru mjög dýrmætt vinnuafl, ekki síst með aukinni hnattvæðingu.

Tvítyngdir einstaklingar eiga einnig oft auðveldara með að læra fleiri tungumál og öflug móðurmálskennsla er nauðsynlegur grunnur undir allt annað nám.

Hulda Karen Daníelsdóttir, kennsluráðgjafi nýbúafræðslu, sagði viðhorf hafa breyst mikið á Íslandi gagnvart móðurmálskennslu tvítyngdra barna. Fyrir aðeins um fimm árum hafi stundum verið hnýtt í að innflytjendur töluðu við börnin sín á sínu eigin móðurmáli og gagnrýnt að þeir reyndu ekki að aðlagast hérlendri menningu. Íslendingar hafi hins vegar verið fljótir að læra og nú séu flestir með á nótunum um mikilvægi þess að foreldrar tali við börn sín á móðurmálinu og gefi þeim þannig grunn til að byggja á við nám annarra tungumála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×