Innlent

Tekjur af varnarliðinu minnka

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Tekjur Íslendinga af varnarliðinu í Keflavík hafa farið hraðminnkandi á síðustu árum. Þær eru nú innan við eitt prósent af vergri landsframleiðslu, og voru um 8 milljarðar í fyrra.

Tekjur af varnarliðinu síðustu 16 árin hafa verið á bilinu 8 til 12 milljarðar króna, mestar árið 2003 en minnstar í fyrra. Þetta kemur fram í tölum sem Seðlabankinn hefur tekið saman. Tekjurnar hafa í heild sinni verið tæpir 162 milljarðar frá 1990 til 2005.

Árið 1990 voru tekjurnar 2,5% af vergri landsframleiðslu en hafa síðan minnkað stig af stigi hvert ár síðan og voru 0,8% af vergri landsframleiðslu í fyrra. Árið 1990 voru tekjur af varnarliðinu 7% af útflutningstekjum en í fyrra voru þær 2,3% og hefur það hlutfall farið minnkandi nánast ár hvert.

Það er ljóst að tekjur af varnarliðinu hafa skipt þjóðarbúið minna máli síðustu ár en brotthvarf þess mun skipta Suðurnesjamenn töluverðu máli.

Starfsmenn varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eru uggandi um framtíðina en yfirmenn hersins ræddu við starfsfólk í gær. Lítið mun hafa komið út úr þeim fundi.

Gjaldeyrismarkaðurinn brást neikvætt við fréttum af bortthvarfi varnarliðsins og lækkaði gengi krónunnar strax í upphafi um hálft prósent. Krónan styrktist síðan jafnt og þétt aftur.

Það er mat greiningardeild Landsbankans að brotthvarfið hafi áhrif til lækkunar á langtíma jafnvægisraungengi krónunnar en þau áhrif verið sennilega ekki mikil

Greiningardeild KB-banka segir að í ljós upplýsinga frá Seðlabankanum ætti brotthvarf varnarliðsins að hafa óveruleg áhrif á þróun viðskiptajafnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×