Innlent

Stórsýning byggingariðnaðar í sýningarhöll

MYND/Valgarður

Helstu nýjungar í byggingariðnaði og mannvirkjagerð og kynning á skipulagsmálum sveitarfélaga er meðal þess sem sjá má á sýningunni Verk og vit 2006 sem opnuð var í nýju sýningarhöllinni í dag. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar sem haldin hefur verið hér á landi.

Það var Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra sem opnaði sýninguna í dag að viðstöddum helstu forkólfum iðnaðar í landinu. Alls taka um 120 sýnendur þátt í sýningunni sem spannar allt frá skipulagsmálum sveitarfélaga til stakra lausna á heimilum. Fjögur ár eru síðan Samtök iðnaðarins héldu svipaða sýningu hinum megin þilja í Laugardalshöllinni en frá þeim tíma hefur verið mikill uppgangur í mannvirkjagerð og hefur verkefnastaða fyrirtækja í byggingariðnaði sjaldan verið jafn góð að sögn kunnugra. Velta í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð jókst mikið á milli áranna 2004 og 2005 og bendir margt til að heildarveltan verði ríflega 150 milljarðar á síðasta ári að sögn aðstandenda sýningarinnar.

En það voru ekki einungis fyrirtæki og sveitarfélög sem sýna sig og sjá aðra í sýningarhöllinni því Iðnskólinn í Reykjavík, þar sem margir af iðnaðarmönnum landsins hafa sótt menntun sýna. Þar eiga nemendur heiðurinn af sýningarbásnum.

Sýningin er opin almenningi frá klukkan tólf til fimm um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×