Innlent

Kemur út sex daga vikunnar í 700-900 þúsund eintökum

Frá Kaupmannahöfn
Frá Kaupmannahöfn MYND/Pjetur

Dagsbrún stefnir að því að hefja útgáfu fríblaðs í Danmörku á þessu ári. Miðað er við að upplag blaðsins verði 700-900 þúsund eintök.

Tilkynnt var í dag að Dagsbrún hf. hafi stofnað félagið 365 Media Scandinavia A/S í Danmörku. Stofnun félagsins er sögð marka fyrstu skref Dagsbrúnar, sem er móðurfélag 365 prent- og ljósvakamiðla, í átt að útgáfu fríblaðs í líkingu við Fréttablaðið í Danmörku.

Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar, sagði í samtali við NFS síðdegis þetta vera eðlilegt framhald á þreifingum félagsins við að hasla sér völl á fjölmiðlamarkaði á Norðurlöndum. Hið nýja félag muni svo á næstu tveimur mánuðum þróa viðskiptamódel og vinna að stofnun fyrirtækis utan um dreifikerfi hins nýja dagblaðs, auk undirbúnings að stofnun hins nýja dagblaðs. Gunnar Smári segir að samkvæmt rannsóknum Dagsbrúnar sé ekkert sem segi að útgáfa sambærilegs blaðs og Fréttablaðsins myndi ganga verr í Danmörku en á Íslandi, heldur þvert á móti.

Aðspurður um ritstjórnarstefnu blaðsins segir Gunnar Smári að þetta muni ekki vera æsifréttablað, enda slíkt ekki hyggilegt þar sem blaðið sé sett óumbeðið inn um lúguna hjá fólki. Blaðið muni því einnig líkjast Fréttablaðinu hvað ritstjórnarstefnuna varðar.

Ætlunin er að blaðið komi út sex daga vikunnar og mun útgáfa þess líklega hefjast með haustinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×