Innlent

Sjúkraflugvélin fjarri þegar hennar var þörf

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum.

Rúmur klukkutími leið frá því óskað var eftir sjúkraflugi fyrir fárveikt tveggja ára barn í Vestmannaeyjum þar til flugvélin sem sinna átti fluginu kom til Eyja. Flugvélin á að vera þar að staðaldri en var í viðgerð í Reykjavík þegar hennar var þörf.

Landsflug tók við sjúkrafluginu í Vestmannaeyjum um síðustu áramót og samkvæmt samningi fyrirtækisins við heilbrigðisráðuneytið á flugvélin sem annast flugið að vera staðsett í Vestmannaeyjum. Svo var þó ekki í gærkvöldi og þurfti að panta vélina frá Reykjavík.

Hjalti Kristjánsson læknir annaðist barnið. Hann segir það afar slæmt að engin flugvél hafi verið í Vestmannaeyjum í gærkvöldi og að sér hafi verið farið að lítast mjög illa á stöðu mála. Hjalti segir mun erfiðara að kanna hvað hrjái fárveik smábörn en fullorðna og takmarkaða aðstöðu til þess í Eyjum. Þegar við þetta bætist að engin vél til sjúkraflug hafi verið í eynni hafi sá tími sem hann hafði til að skoða barnið takmarkast enn frekar.

Björn Þverdal, gæðastjóri hjá Landsflugi, segir ástæðuna fyrir því að engin flugvél var í Vestmannaeyjum vera þá að vélin sem sinnir fluginu hafi verið senda til viðgerðar í Reykjavík. Þess vegna þurfti að kalla út aðra vél þegar þörf var fyrir sjúkraflutning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×