Innlent

Atvinnuleysi í janúar 1,6%

MYND/NFS

Atvinnuleysi á Íslandi hefur farið ört minnkandi undanfarið ár. Í janúar á síðasta ári var atvinnuleysi 3% eða nær helmingi meira en nú er. Tæplega 2.500 manns voru að meðaltali á atvinnuleysisskrá í síðastliðinum mánuði. Eðlilegt þykir að atvinnuleysi sé á bilinu 3-3,5%. Það er tilkomið vegna þeirra sem eru að skipta um störf.

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, segir að svo lítið atvinnuleysi sem nú er geti valdið launaskriði og verðbólgu. Lítið atvinnuleysi eins og nú auki verðbólguþrýsting. Fyrirtækin sem skorti vinnuafl verði að bjóða hærri laun og þau sem eru bundin af föstum kjarasamningum missi starfsfólk.

Þórólfur segir erfitt að segja til um hvenær atvinnuleysi fari aukast aftur. Gert hafði verið ráð fyrir að draga færi úr því í lok árs eða byrjun þess næsta þegar síga færi á seinni hluta framkvæmda við Kárahnjúka. Frekari virkjunarframkvæmdir hafi hins vegar verið boðaðar af stjórnvöldum og ástandið geti því haldist svipað til ársins 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×