Innlent

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tvöfalda umferðaröryggisgjald

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tvöfalda svokallað umferðaröryggisgjald. Samgönguráðherra mælti fyrir frumvarpi þessa efnis síðdegis á föstudag, sama dag og fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um hækkun á ýmsum aukatekjum ríkissjóðs, sem gerir ráð fyrir 37 milljóna króna viðbótartekjum, m.a. af gjaldi fyrir að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Frumvarp samgönguráðherra gerir ráð fyrir að umferðaröryggisgjald verði hækkað úr 200 kr. upp í 400 kr. en í því felst skattahækkun á alla bíleigendur í landinu. Gjaldið er greitt í hvert sinn sem bíll er færður til aðalskoðunar en einnig við eigendaskipti á bílum og skráningu þeirra. Gjaldið var 100 krónur þegar það var upphaflega sett á árið 1993, hækkaði síðan í 200 krónur árið 1996 en nú vill ríkisstjórnin hækka skattinn í 400 krónur. Með því hækkar skattheimtan úr 35 milljónum króna á ári upp í 70 milljónir króna. Tekjurnar af gjaldinu renna til nýlegrar ríkisstofnunar, Umferðarstofu, en þar starfa nú 55 manns, og eru eyrnarmerktar umferðaröyggisáætlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×