Innlent

Hvattir til að hunsa staðsetningargjald

MYND/GVA

Félag íslenskra stórkaupmanna vill að Samkeppnisráð athugi hvort um ólögmætt samráð hafi verið að ræða hjá Eimskipi og Samskipum við upptöku staðsetningargjalds. Það hvetur félagsmenn til að hunsa gjaldið. Forstjóri Samskipa segir ekkert óeðlilegt við staðsetningargjaldið.

Skipafélögin Eimskip og Samskip hafa með stuttu millibili tekið upp staðsetningargjald sem lagt er á alla innflutningsvöru til Íslands. Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, segir að gríðarleg aukning hafi orði í innflutningi en á sama tíma hafi útflutningur nær staðið í stað. Við þetta hafi myndast misræmi sem hafi orðið til þess að Samskip hafa meðal annars þurft að tvöfalda flutningsgetu sína. Samskip tilkynnti viðskiptavinum sínum um gjaldið í þessum mánuði en Eimskip sínum í þeim síðasta.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, segir sérstakt að gjaldið heiti það sama. Þeim þyki einnig óeðlilegt að fyrirtækin hafi tekið gjaldið upp á sama tíma og að það sé nákvæmlega jafn hátt. Þeir hafi því ákveðið að beina því til Samkeppnisstofnunar að rannsaka hvort að löglega hafi verið staðið að ákvörðuninni um gjaldið.

Ásbjörn, forstjóri Samskipa, segir ekkert óeðlilegt við tímasetningu gjaldsins þar sem þörfin hafi verið ljós fyrir löngu og þegar keppinautur þeirra hafi tekið upp gjaldið hafi þeir einungis fylgt á eftir. Andrés telur að um samningsbrot sé að ræða. Nær öll innflutningsfyrirtæki séu með fasta viðskiptasaminga við skipafélögin. Þetta sé því að þeirra mati hreint brot á þeim samningum.

Félag íslenskra stórkaupmanna hvetur félagsmenn sína til að hunsa þessa ákvörðun skipafélaganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×