Innlent

Norðmenn mættir í loðnuna

Tvö norsk loðnuskip komu inn í íslenska lögsögu í nótt og er búist við nokkrum tugum norskra skipa á miðin, ekki síst vegna viðbótarkvótans, sem gefinn var út í morgun.

Norðmenn máttu veiða um nítján þúsund tonn af hundrað þúsund tonna kvótanum, sem gefinn var út til bráðabirgða hér við land. Ekki liggur ljóst fyrir hvort heimildir þeirra verði alveg tvöfölduð þrátt fyrir tvöföldun heildarkvótans, en fyrir liggur að kvóti þeirra nægir til að fylla að minnsta kosti rúmlega 30 skip einu sinni. Loðnan, sem veiðist nú fyrir austan er góð til frystingar og hyggjast Noðrmenn frysta allt sem þeir veiða, til manneldis, ýmist um borð í skipunum eða í landi í Noregi eða jafnvel hér á Íslandi.

Íslensku loðnuskipin eru að fá tíu til ellefu þúsund krónur fyrir tonnið til frystingar, sem er hátt í tvöfalt hærra en til bærðslu. Þau fáu íslensku skip, sem eru byrjuð veiðar, fara sér að engu óðslega og veiða í takt við afkastagetu frystingarinnar, en líklegt er að skipum fjölgi nú á miðunum eftir að kvótinn var aukinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×