Innlent

Nánast ómögulegt að vera ritstjóri og sitja í stjórnarskrárnefnd samtímis

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins í fyrradag.
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins í fyrradag. MYND/GVA

Það verður mjög erfitt fyrir Þorstein Pálsson að vera óháður ritstjóri Fréttablaðsins á meðan hann er talsmaður Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefnd. Þetta segir ritstjórinn fyrrverandi, Össur Skarphéðinsson, sem einnig situr í nefndinni. Hann segir jafnframt að átök hafi átt sér stað innan nefndarinnar sem hann kveðst eiga von á að eigi eftir að harðna þegar fram í sækir.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins í fyrradag. Hann situr fyrir hönd flokksins í stjórnarskrárnefnd, og er ennfremur varaformaður hennar, en nefndin vinnur nú að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þorsteinn sagðist í dag ekki sjá að störf hans sem ritstjóri og nefndarmanns skarist, né að seta hans í nefndinni geri Fréttablaðinu erfiðara fyrir að fjalla um störf nefndarinnar.

Þessu er Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar og einn nefndarmanna, ósammála. Hann segir ljóst að með ráðningu Þorsteins sé einn af trúnaðarmönnum Sjálfstæðisflokksins orðinn ritstjóri Fréttablaðsins, og kveðst hann ekki geta séð hvernig blaðið geti fjallað á hlutlausan hátt um margt af því sem viðkemur störfum nefndarinnar. Ekki síst sé það erfitt í ljósi þess að átök hafa átt sér stað innan nefndarinnar sem líklega eigi eftir að aukast og ná út fyrir nefndina, og þannig verða opinber. Aðspurður hvort Þorsteinn eigi að hans mati að víkja úr nefndinni segir Össur að það verði Þorsteinn sjálfur að gera upp við sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×