Innlent

Vöruskiptahallinn áfram mikill

Íslendingar halda áfram að flytja mun meira af vörum til landsins en frá því. Vöruskiptahallinn í janúar er um helmingi meiri í ár en í janúar á síðasta ári.

Bráðabirgðatölur frá Hagstofunni sýna að verðmæti innflutnings í janúar nam 25,5 milljörðum króna og verðmæti útflutnings 15,4 milljörðum króna. Vöruskiptajöfnuður í janúarmánuði er því neikvæður um 10,1 milljarð króna. En á sama tíma í fyrra var vöruskiptahalllinn mun minni, eða 4,9 milljarðar. Innflutningur Íslendinga er 36% meiri í janúar nú en í janúar í fyrra.

Greiningadeildir bankanna segja ástæður aukins innflutnings mega rekja til yfirstandandi stóriðjuframkvæmda, hás gengis krónunnar, mikillar eignamyndunar á fasteigna- og hlutabréfamarkaði og mikinn innflutning bifreiða.

Ein birtingarmynd þessa mikla innflutnings er staðsetningargjald sem flutningafyrirtækin Eimskip og Samskip hafa nú sett á. Þannig leggst nú á hátt í sexþúsund króna gjald á 20 rúmmetra gám frá Samskipum sem fluttur er til landsins frá Evrópu. Í tilkynningu sem Samskip sendi viðskiptavinum sínum vegna málsins, segir að vegna aukningar í flutningum til landsins hafi fyrirtækið þurft að grípa til ýmissa ráða til að bæta flutningsgetu sína. Þær upplýsingar fengust hjá fyrirtækinu að nú þurfi oft að flytja tóma gáma frá landinu vegna ósamræmis í inn- og útflutningi og staðsetningargjaldið tilkomið vegna þess. Samskip fjölgaði flutningaskipum sínum síðasta sumar til að anna auknum innflutningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×