Innlent

Menntamálaráðherra og kennaraforystan ná sögulegri sátt

Menntamálaráðherra og kennaraforystan náðu sögulegri sátt í dag og munu vinna saman að endurskoðun á námi í tengslum við styttingu á námstíma til stúdentsprófs.

Menntamálaráðherra og formaður Kennarasambandsins undirrituðu í dag samkomulag um samstarf sem nefnt er tíu skref til sóknar og miðar að því að bæta enn frekar skólakerfið. Meðal annars stendur til að endurskoða lög um leik- grunn- og framhaldsskóla og efla kennaramenntun. Þá fá framhaldsskólar fjögurra ára aðlögunartíma til að takast á við breytta námsskipan, en áfram er stefnt að því að stytta framhaldsskólann úr fjórum árum í þrjú.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir að með þessu sé að hluta til móts við þær gangrýnisraddir sem bent hafa á að stytting náms til stúdentsprófs geti leitt til skerðingar á náminu. Hún vill að horft verði á inntak stúdentsprófsins og ekki verði einblínt á einingafjölda.

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir sambandið alla tíð hafa verið andvígt skerðingu náms. Kennaraforystan hafi staðið frammi fyrir tveimur kostum.

Menntamálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp um breytta skipan stúdentsprófs nú á vorþingi en reiknað er með að grunnskólinn byrji að vinna samkvæmt nýrri námsskipan árið 2007 og framhaldsskólar almennt árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×