Innlent

Margar loðnuverksmiðjur lokaðar áfram

Loðna.
Loðna.

Allar loðnuverksmiðjur í landinu hafa að mestu verið lokaðar síðan í júní í fyrra og verða margar áfram. Sumarvertíðin brást alveg, botninn datt úr kolmunnaveiðunum, og engin kraftur verður í vetrarvertíðinni, miðað við núgildandi kvóta.

Hann er aðeins um 50 þúsund tonn handa íslensku skipunum og ætla allir útvegsmenn sem geta að frysta sem allra mest um borð eða í landi til manneldis, þannig að lítið verður eftir handa bræðslunum. Svo hafa líka vaknað upp spurningar um hvort vert sé að veiða nokkuð, úr því litla magni sem fundist hefur, til að stefna hrygningunni ekki í tvísýnu.

Magnús Þór Hafsteinsson Alþingismaður Frjálslynda flokksins og fiskifræðingur, gagnrýnir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra harðlega fyrir að hafa gefið út loðnukvóta þegar aðeins um 500 þúsund tonn hafa fundist á miðunum. Hann segir á heimasíðu sinni að þessa ákvörðun ráðherra sé vanhugsuð og mikil mistök við núverandi aðstæður. Þorskstofninn sé í sögulegu lágmarki, meðal annars vegna skorts á æti, rækjustofninn hruninn og sömuleiðis hörpudiskurinn. Úthafskarfastofninn virðist vera á hröðu undanhaldi, sömuleiðis flatfiskstofnar við landið, að ógleymdum loðnustofninum sjálfum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×