Innlent

Varnarviðræður hefjast á morgun

Viðræður um varnarmál milli Íslands og Bandaríkjanna hefjast á nýjan leik í Washington á morgun. Ekkert fæst uppgefið um efni þeirra en líkur eru þó taldar á að Íslendingar muni taka við rekstri björgunarþyrlusveitarinnar.

Utanríkisráðuneytið verst allra frétta af viðræðunum, hvorki fæst uppgefið hvert efni þeirra nákvæmlega sé né hverjir fari fyrir íslensku sendinefndinni. Albert Jónsson sendiherra verður þó að öllum líkindum áfram formaður hennar enda þótt Bandaríkjamönnum eigi að hafa gramist mjög framganga hans í Washington í haust.

Robert Loftis, sendiherra í bandaríska utanríkisráðuneytinum, mun áfram sitja hinum megin borðsins. Sem fyrr verður skipting kostnaðar við rekstur varnarstöðvarinnar væntanlega aðalumræðuefnið, og jafnframt helsta ágreiningsefnið. Hann er á bilinu 15-16 milljarðar króna en Íslendingar hafa ekki verið til viðræðu um annað en að axla lítinn hluta þeirrar fjárhæðar. Samkvæmt heimildum NFS gæti sú hugmynd um að íslensk stjórnvöld tækju yfir rekstur björgunarþyrlusveitarinnar aftur á móti orðið til að höggva á hnútinn. Bandaríkjaher er sagður hafa mun meiri þörf fyrir þyrlurnar en orrustuþoturnar annars staðar í heiminum og ef Íslendingar sjá um að kaupa nýjar þyrlur og reka þær eru góðar líkur taldar á að þoturnar verði hér á landi áfram. Það þætti hins vegar að skera á tengslin á milli þyrlusveitarinnar og þotusveitarinnar og því er langt í frá sjálfgefið að þetta verði að veruleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×