Innlent

Borgin ætlar í mál vegna samráðs olíufélaganna

Borgarstjóri ætlar að sýna olíufélögunum tennurnar. Hann hefur skipað lögmanni borgarinnar að fara í mál vegna samráðsins.

Fyrir utan þetta snérust samkeppnisyfirvöld til varnar í morgun þegar þau lögðu fram greinargerð í héraðsdómi. Málið er þannig tvíþætt. Annars vegar hafa sem sagt olíufélögin stefnt samkeppnisyfirvöldum og vilja að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála um ólöglegt samráð félaganna verði felldur í gildi. Þá vilja félögin að sektir vegna samráðsins verði felldar niður eða lækkaðar. Þessu hafna samkeppnisyfirvöld í fyrrnefndri greinargerð. Sektirnar voru reyndar lækkaðar í fyrra en eru ennþá einn og hálfur milljarður samanlagt. Skeljungur, Esso og Olís segjast ekkert hafa grætt á samráðinu heldur þvert á móti tapað og því sé óréttlátt að sekta þau. Þrátt fyrir það hafa þau opinberlega beðist afsökunar á samráðinu í stórum blaðaauglýsingum og það sem meira er, og hér komum við að hinum hluta málsins, þau hafa boðið Reykjavíkurborg að semja um bætur vegna þess skaða sem borgin varð fyrir af samráðinu. Og núna ætlar borgin í mál.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri segir að sér sýnist það stefna í að borgin sæki rétt sinn enda sé hún staðráðin í að gæta hagsmuna Reykvíkinga í málinu. Hún segir það augljóst að olíufélögin hafi haft töluvert fé að fólki með ólögmætu samráði og henni finnst að borgaryfirvöld eigi að hafa kjart til að sækja málið. Steinunn segir að lögmaður borgarinnar sé að fara yfir máið og líklega verði stefna tilbúin á næstu dögum. Hún segir að aðalkrafa borgarinnar í málinu sé upp á um 150 milljónir króna og það sé sú upphæð sem borgin ætli að láta reyna á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×