Innlent

Einn handtekinn fyrir vopnað rán

Einn hefur verið handtekinn grunaður um að hafa rænt Happdrætti Háskóla Íslands við Tjarnargötu laust fyrir klukkan tólf í dag. Sá sem er í hald var dæmdur fyrir vopnað rán árið 2004.

Maðurinn ruddist inn, veifaði byssu og sagðist vera að ræna útibúið: Hann vatt sér síðan að næsta peningakassa, tók laust fé úr honum og hvarf á braut. Maðurinn var grímuklæddur en ekki er vitað hvort byssan sem hann veifaði var alvörubyssa eða eftirlíking. Maðurinn var íklæddur bláum kraftgalla sem hann afklæddis á flóttanum í nálægum húsgarði. Enginn starfsmaður slasaðist í ráninu.

Bogi Sigvaldason varðstjóri segir að kraftgalli mannsins og önnur föt frá honum hafi fundist í garði rétt fyrir ofan ránsstaðinn. Sá sem er í haldi grunaður um verknaðinn var handtekinn í vesturbæ Reykjavíkur á milli klukkan eitt og tvö í dag. Þegar sá grunaði framdi vopnað rán árið 2004 var hann vopnaður gasskammbyssu. Þegar hann var dæmdur fyrir það rán var hann líka dæmdur fyrir að hafa hótað öðrum manni með haglabyssu, og fyrir að hafa ógnað afgreiðslumanni bensínstöðvar með hnífi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×