Innlent

Múslimar sárir við Dani og Norðmenn

Danska stjórnin varaði danska ríkisborgara í dag við því að ferðast til Sádi-Arabíu, þar sem mikil reiði ríkir vegna birtinga teikninga af Múhameð spámanni. Reiðin er einnig farin að beinast gegn Norðmönnum eftir að norskt blað birti teikningarnar.

Danski fáninn var í ljósum logum á götum Gaza-landræmunnar, merki um vaxandi reiði í garð Dana í löndum múslima. Og nú beinist reiðin einnig gegn Norðmönnum, eftir að blað í Noregi birti sömu teikningar. Vopnaðir menn réðust inn á skrifstofu Evrópusambandsins í Gaza og höfðu í hótunum við Dani og Norðmenn sem þar vinna. Norskir hjálparstarfsmenn eru á leið burt frá Gaza. Jyllandsposten hefur birt afsökunarbeiðni á dönsku og arabísku, þar sem ritstjórinn, Carsten Juste, segir að tilgangur með birtingu teikninganna hafi ekki verið að særa trúartilfinningar manna. Blaðið hafi ítrekað beðist afsökunar á undanförnum mánuðum. Í Egyptalandi má enn sjá danskar vörur í verslunum, einkum smjör og osta. En fólk er sárt.

Í Saudi Arabíu eru hillur nú tómar þar sem áður voru seldar danskar vörur. Líbíska sendiráðið í Kaupmannahöfn er nú eins og draugahús eftir að stjórn Gaddafís Líbíuleiðtoga ákvað að loka sendiráðinu í mótmælaskyni við birtingu teikninganna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×