Innlent

Stjórnvöld standi við skuldbindingar

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur sent frá sér ályktun þar sem þung áhersla er lögð á að stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Bókunin veitir Íslendingum svigrúm til að auka framleiðslu á áli um 280 þúsund tonn til ársins 2012. Í ályktuninni segir að það svigrúm verði að nýta af varfærni og vara við áformum um að skilja eftir framtíðarvandamál sem tengjast of mikilli losun gróðurhúsalofttegunda.

Ályktunin er svohljóðandi: „Í tengslum við umræður síðustu daga um aukna stóriðju leggur Samfylkingin þunga áherslu á að stjórnvöld fari í hvívetna að þeim skuldbindingum sem Íslendingar öxluðu með aðild að Kýótó-bókuninni við Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Bókunin veitir Íslendingum aðeins svigrúm til að auka framleiðslu á áli um 280 þúsund tonn fram til ársins 2012. Samfylkingin telur að það svigrúm verði að nýta af varfærni og varar við öllum áformum um að velta yfir á framtíðina vandamálum sem tengjast of mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Allar ákvarðanir um aukna stóriðju verður að taka í samræmi við ítrustu sjónarmið um umhverfisvernd, stöðugleika í efnahagsmálum og skynsamlega atvinnu- og byggðastefnu.

Brýnt er að ákvörðun verði ekki tekin nema áður hafi farið fram nákvæmt og yfirvegað mat á þeim kostum sem koma til greina varðandi staðarval, orkuöflun og tímasetningu. Staðsetning stóriðju getur haft heillavænleg áhrif á þróun byggðar þar sem atvinnustig er veikt. Slík sjónarmið verður því að vega og meta áður en endanleg ákvörðun er tekin. Á svæðum eða við aðstæður þar sem þensla er mikil getur hún aftur á móti haldið aftur af vexti í öðrum mikilvægum atvinnugreinum s.s. hátækniiðnaði og ferðaþjónustu.

Við ákvörðun um stóriðju innan ramma Kýótó-bókunarinnar vega eftirfarandi sjónarmið þyngst, að mati Samfylkingarinnar:

- Staðarval og orkuöflun séu byggð á ströngustu kröfum um umhverfisvernd.

- Stóriðju sé valinn staður þar sem líklegt er að hún hafi veruleg, jákvæð áhrif á byggðaþróun og sé í fullri sátt við heimamenn.

- Framkvæmdir séu tímasettar þannig að þær örvi hagkerfið þegar dregur úr núverandi hagsveiflu.

- Orkuverð tryggi verulega arðsemi af virkjunum.

Ákvörðun um ráðstöfun takmarkaðra losunarheimilda og staðarval stóriðju varðar svo margþætta og mikilvæga hagsmuni að hana þarf að taka í samráði við Alþingi og ríkisstjórn. Það vekur því sérstaka athygli að iðnaðarráðherra hefur lýst því opinberlega að ákvörðun Landsvirkjunar um samninga vegna aukinnar stóriðju sé tekin án samráðs við iðnaðarráðherra og þarmeð ríkisstjórnina. Forstjóri Landsvirkjunar segir að þetta hafi verið pólitísk ákvörðun. Samfylkingin telur þessi vinnubrögð forkastanleg. Landsvirkjun starfar á ábyrgð ríkisins og hefur aðgang að auðlindum í eigu almennings. Ríkisstjórnin getur ekki vísað frá sér ábyrgð og framselt til fyrirtækisins pólitískt ákvörðunarvald í máli sem mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir efnahagsþróun og atvinnuuppbyggingu í landinu á næstu árum."

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×