Innlent

Vopnað rán hjá Happdrætti Háskólans

Hettuklæddur maður vopnaður byssu rændi Happdrætti Háskóla Íslands við Tjarnargötu laust fyrir klukkan tólf í dag. Mannsins er leitað. Enginn starfsmaður slasaðist í ráninu.

Maðurinn kom inn með byssu, sem óvíst er hvort var alvöru byssa eða eftirlíking, og sagðist vera að ræna útibúið. Maðurinn, sem var íklæddur bláum kraftgalla, vatt sér síðan að næsta peningakassa, tók laust fé úr honum og hvarf á braut. Ekki liggur fyrir hvað hann komst burt með mikið fé.

Maðurinn, sem var íklæddur bláum kraftgalla, mun síðan hafa afklæðst á flóttanum en gallinn fannst í nálægum húsgarði ásamt öðrum fötum. Mannsins er nú leitað.

Verið er að taka skýrslur af starfsfólki sem var við vinnu þegar þetta fyrsta vopnaða rán í 70 ára sögu Happdrættis Háskóla Íslands átti sér stað.

Lögreglan hvetur fólk sem kunni að hafa séð til manns að skipta um föt í Grjótaþorpinu eða næsta nágrenni að gefa sig fram.

Bogi Sigvaldason, varðstjóri, sagði í viðtali við NFS að starfsfólk hefði brugðist hárrétt við, varðveitt vettvang glæpsins vel og þegar tilkynnt um ránið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×