Innlent

Biskup misskilur frumvarp

Biskup Íslands virðist misskilja frumvarp ríkisstjórarinnar um réttarstöðu samkynhneigðra að því er varðar þann hluta þess sem fjallar um tæknifrjóvganir. Ef svo er ekki þá er ekki annað að sjá en að um útúrsnúning sé að ræða að sögn Ragnars Aðalsteinssonar, hæstarréttarlögmanns.

Biskup Íslands virðist vera mjög á móti því að konur sem eru í staðfestri sambúð með annarri konu fái að fara í tæknifrjóvgun með gjafasæði. Sem rök gegn þessu segir biskup í umsögn sinni um frumvarpið það rétt hvers barns að eiga föður og móður. Í lögum um tæknifrjóvganir er hins vegar tryggt að sæðisgjafi nýtur alltaf nafnleyndar, óski hann þess og því getur barn sem þannig er getið aldrei þekkt blóðfaðir sinn. Í barnalögum er hins vegar sagt að hvert barn á rétt á að eiga föður og móður en neð nýju ættleiðingalögunum, þar sem eistaklingar hafa rétt til ættleiðingar, hefur verið sett fordæmi fyrir því að svo þurfi ekki alltaf að vera. Eins gerir frumvarpið ráð fyrir því að barnalögum verði breytt og í staðinn fyrir móður og föður verður réttur barns til að eiga foreldra tryggður.

Orðrétt segir biskup: "Mér sýnist sem kona í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu öðlist samkvæmt frumvarpinu meiri rétt en kona í hjúskap hvað varðar rétt til tæknifrjóvgunar með gjafasæði."

Að sögn Ragnars Aðalsteinssonar, hæstarréttarlögmanns virðist sem biskup sé að misskilja frumvarpið. Hann segir biskup ekki hafa nein rök fyrir því sem hann er að segja og að frumvarpið feli ekki í sér neina mismunun. Ef biskup er hins vegar er að meina að það felist mismunur í því að hjón þurfi að leita allra leiða til að geta barn áður en gripið er til þess ráðs að nota gjafasæði, en konur í samvist með annarri konu þurfa þess ekki þá er það útúrsnúningur hjá biskupi að mati Ragnars enda sjái allir að tvær konur geta ekki getið barn með öðrum leiðum en að nota gjafasæði.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×