Innlent

Álver á Norðurlandi eina glóran

Mynd/GVA

Smári Geirsson, forseti bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar, sagði í hádegisviðtalinu á NFS í dag að eina glóran sé að reisa álver á Norðurlandi. Álver í Fjarðarbyggð hafi breytt sveitarfélaginu frá því að vera samfélag í vörn í að vera samfélag í sókn.

Smári Geirsson sagði ákvörðun um frekari uppbyggingu stóriðju á suðvesturhorninu mikið umhugsunarefni. Hann sagðist skilja að menn vildu gera vel við þau fyrirtæki sem þegar reki álver í landinu en að þó þyrfti að hafa byggðastefnuna í huga. Þegar væri gríðarleg uppbygging á Suðvesturlandi. Þar af leiðandi væri mikilvægt að marka þá stefnu að uppbygging af þessu tagi yrði utan þessa svæðis.

Smári var spurður álits á því að Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra lýsti sig nánast stikkfría af þeirri ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar að ganga til samninga við Alcan um stækkun álversins í Straumsvík. Svaraði hann því til að mál af þessari stærðargráðu hlyti að koma til skoðunar ríkisstjórnarinnar og að hann tryði ekki að Valgerður væri þessarar skoðunar.

Jafnframt sagði Smári að varðandi nýtt álver væri það eina glóran að það yrði byggt á Norðurlandi en ekki á Reykjanesi. Sagði hann að í flestum tilvikum hefðu menn vanmetið áhrif af uppbyggingu stóriðju á Austurlandi. Fleiri störf hefðu skapast og meiri þörf væri á nýju atvinnu- og íbúðahúsnæði en búist hefði verið við. Þá sagði Smári að samfélagið á Austurlandi yrði sterkara þegar framkvæmdunum yrði lokið, það hefði breyst í að vera samfélag í vörn í að vera samfélag í sókn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×