Erlent

Hamas falin myndun ríkisstjórnar

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, hefur falið Hamas-samtökunum að mynda nýja ríkisstjórn en þau unnu stórsigur í palestínsku þingkosningunum í fyrradag. Engin breyting hefur orðið á afstöðu leiðtoga Vesturveldanna til samtakanna.

Þúsundir stuðningsmanna Hamas fylktu liði á götum helstu borga Palestínumanna í gær og í dag eftir að í ljós kom að samtökin höfðu unnið yfirburðasigur í kosningunum, 76 þingsæti af 132. Í dag tilkynnti Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar, að hann myndi fela Hamas að mynda nýja ríkisstjórn:

„Ég mun biðja þann flokk sem vann flest atkvæði í þingkosningunum (Hamas) að mynda nýja ríkisstjórn. Fram að þessu höfum við ekki farið þess á leit við neinn flokk um að mynda ríkisstjórn. Við höfum átt í viðræðum við alla flokka og auðvitað munum við biðja þann flokk sem vann meirihluta að mynda ríkisstjórn."

Hljóðið var þungt í Ehud Olmert, starfandi forsætisráðherra Ísraels, eftir neyðarfund í gærkvöldi þar sem hann ítrekaði að ekki yrði samið við ríkisstjórn með Hamas innanborðs fyrr en samtökin hefðu afvopnast og viðurkennt tilverurétt Ísraelsríkis. Bandamenn Ísraela á Vesturlöndum hafa sent Hamas-liðum svipaðar áskoranir í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×