Innlent

Reyna að finna starfsfólk með óhefðbundinni leið

MYND/Róbert

Viðvarandi mannekla veldur því að draga hjekki er hægt að taka inn nýja vistmenn á dvalarheimilið Hrafnistu í Reykjavík. Forsvarsmenn stofnunarinnar hafa farið heldur óhefðbundna leið til að vekja áhuga fólks á störfum á heimilinu og fólk allt niður í tíu ára hefur sýnt áhuga á störfunum.

Hrafnista dreifði á dögunumauglýsingabæklingi í nokkrum hverfum Reykjavíkurborgar þar sem fólki er boðið í vinnu hjá stofnuninni. Þar segir einnig að fólk geti valið vinnutíma og að launin séu betri en það haldi. Ástæðan fyrir þessu átaki er viðvarandi skortur á starfsfólki frá því í haust en Hrafnista hefur ekki farið varhluta af því frekar en aðrar umönnunarstofnanir að þensla er á vinnumarkaði og töluverð samkeppni um vinnuafl.

Dagbjört Þyrí Þorvarðardóttir, hjúkrunarforstjóri Hrafnistu, segir að enn vanti fólk í um 15 stöðugildi og hún vonast til að með auglýsingunni náist að manna þær stöður. Hún segir það um auglýsinguna að Hrafnista hafi auglýst mikið í dagblöðum með misjöfnum árangri og því hafi forsvarsmenn fari á hugarflug og fundið þessa leið. Reynt verði að finna fólk sem hafi unnið á öðrum vettvangi og kynnt fyrir því möguleikinn á að koma til vinnu hjá Hrafnistu.

Töluvert hefur verið um fyrirspurnir eftir að auglýsingabæklingurinn var borinn út og það frá fólki á öllum aldri. Dagbjört segir að sá yngsti hafi verið tíu ára og hann hafi vakið mikla aðdáun hjá forsvarsmönnum stofnunarinnar en því miður hafi ekki verið hægt að ráða hann.

Dagbjört Þyrí segir mikið álag hafa verið á starfsfólki Hrafnistu vegna manneklunnar. Þetta hafi verið miklir erfiðleikar í allt haust. Stofnunin hafi þurft að auglýsa mikið og draga úr innlögnum sem sé mjög bagalegt. Starfsfólk hafi sýnt mikinn dugnað og elju. Ástandið hafi skánað eftir áramótin og forsvarsmenn Hrafnistu séu mun bjartsýnni nú en áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×