Innlent

Útlit fyrir að fjölmargir leikskólakennarar segji upp störfum

Ekkert samkomulag og engar tillögur koma frá samráðshópi um kjaramál leikskólakennara sem ætlað var að leggja fram tillögur um úrbætur á launamálaráðstefnu sveitarfélaganna á föstudag. Vinnuhópurinn hélt sinn síðasta fund í dag og komst ekki að neinni niðurstöðu.

Á síðustu dögum nýliðins ár sauð næstum upp úr hjá leikskólakennurum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu vegna lágra launa. Margir höfðu ritað uppsagnarbréf og útlit var fyrir enn frekari holskeflu. Borgarstjóri greip þá til þess ráðs, á næstsíðasta degi ársins, að skipa vinnuhóp sem ætlað var að skila niðurstöðum á launamálaráðstefnu sveitarfélaganna sem hefst á föstudag. Í kjölfarið var þeim tilmælum beint til leikskólakennara að fresta uppsögnum, enda sagðist formaður Félags leikskólakennara bjartsýnn á að vinnuhópurinn myndi skila jákvæðum niðurstöðum. Í dag var 5. fundur nefndarinnar haldinn og niðurstaðan er engin.

Grunnkrafa leikskólakennara var að laun leikskólakennara yrðu sambærileg við háskólamenntað starfsfólk leikskóla, sem myndi þýða 8-9 flokka hækkun, en Björg Bjarnadóttir formaður Félags leikskólakennara segir að fulltrúar Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaganna hafi ekki viljað samþykkja þá hækkun strax.

Komi ekkert útspil til lausnar deilunni á launamálaráðstefnunni er útlit fyrir að fjölmargir leikskólakennarar segja upp störfum á næstunni, til viðbótar þeim sem þegar höfðu sagt upp fyrir áramót. Björg vill þó ekki gefa upp alla von ennþá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×