Innlent

Tilraunir með snjóruðningsbíl sem dreifir saltpækli

Það hefur verið þæfingsfærð í Reykjavík og nágrenni undanfarna daga og verður svo enn um sinn. Snjóruðningsdeildir Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar eru við vinnu nánast allan sólarhringinn. Vegagerðinn hefur meðal annars í notkun trukk einn mikinn sem er nýjung í baráttunni við fannfergið. Auk þess að hafa framan á sér stóra tönn til að ryðja snjó hefur hann tuttugu þúsund lítra tank með saltpækli á pallinum. Pæklinum er dreift yfir vegi og götur með tölvustýrðu kerfi, og hefur ýmsa kosti fram yfir þurrsaltið. Saltinnihald pækilsins er ekki nema tuttugu prósent, hitt er vatn. Þetta veldur auðvitað margfalt minni saltmengun.

Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa í mörg ár unnið að því að minnka saltnotkun, meðal annars með pækilsblöndum og er trukkurinn mikli tilraunaverkefni í þá átt. Einnig þykir pækillinn duga mjög vel á hálku sem oft er á morgnana. Hann virkar mjög fljótt og vel á ísinn.

Þá er það kostur við bílinn að hann hentar mjög vel til þess að ryðja og salta veginn til Keflavíkur. Bílar sem dreifa þurrsalti mega ekki aka mikið yfir sextíu kílómetra hraða. Pækilbíllinn getur hinsvegar dreift á áttatíu kílómetra hraða, og tefur því ekki umferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×