Innlent

Forsætisráðuneytinu var ekki heimilt að binda ráðningu umboðsmanns barna við lögfræðimenntun.

Auglýsing um stöðu umboðsmanns barna var birt 5. nóvember 2004. Læknafélag Íslands sendi erindi til umboðsmanns Alþingis vegna auglýsingarinnar en taldi ekki eðlilegt að setja sem skilyrði við skipun í embættið að umsækjandi hefði lokið embættisprófi í lögfræði eða öðru háskólaprófi á sviði hugvísinda.

Með þessu hefðu skilyrðin sem umsækjendur þurftu að uppfylla verið þrengd og læknar verið útilokaðir frá því að fá stöðuna. Umboðsmaður Alþingis tók undir með félaginu í úrskurði sínum en umboðsmaður telur að forsætisráðuneytið hafi ekki sýnt fram á að heimilt væri að setja það sem skilyrði að  umsækjendur um embætti umboðsmanns barna hefðu lokið embættisprófi í lögfræði eða öðru háskólaprófi á sviði hugvísinda .

Læknafélagið vísaði sérstaklega til þess að með skilyrðinu um hugvísindi hefðu hæfir læknar,til dæmis barnalæknar, verið útilokaðir frá embættinu, því læknispróf falli í flokk raunvísinda í þessari merkingu. Í niðurstöðu Umboðsmanns segir að ráðið hafi verið í umrætt embætti á grundvelli auglýsingarinnar sem birt var 5 nóvember 2004. Einnig beinir Umboðsmaður  þeim tilmælum til forsætisráðuneytisins að það hagi framvegis auglýsingum um laus störf þannig að samræmist þeim sjónarmiðum sem rakin eru í álitinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×