Innlent

Íslenskan friðargæsluliða sakaði ekki þegar bílasprengja sprakk á Sri Lanka

Íslenskan friðargæsluliða sakaði ekki þegar bílsprengja sprakk nálægt höfðustöðvum norrænna friðargæsluliða í borginni Batticaloa á Sri Lanka í gær. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu lét enginn lífið í árásinni og enginn særðist.

Sprengjan sprakk í bíl sem er í eigu norrænna friðargæsluliða. Bílinn stóð mannlaus á bílastæði nálægt húsnæði norræna friðargæsluliðsins í borginni. Engan sakaði í árásinni en nokkrir bílar á staðnum skemmdust.

Tveir lögreglumenn sem voru á verði þegar sprengingin varð tilkynntu um hana. Samkvæmt upplýsingum þeirra höfðu norrænu friðargæsluliðarnir notað bílinn aðeins sex til sjö klukkustundum áður en sprengjan sprakk. Lögrelan í Batticaloa rannsakar nú málið. Sprengjuleitarsérfræðingar könnuðu þegar aðra bíla á svæðinu en aðrar sprengjur fundust ekki.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu eru fimm íslenskir friðargæsluliðar að störfum í Sri Lanka og einn þeirra í Batticaloa. Fulltrúar ráðuneytisins náðu sambandi við hann seint í gærkvöld og þá amaði ekkert að honum.

Síðasti mánuður hefur verið sá blóðugasti á Sri Lanka síðan samið var um vopnahlé fyrir fjórum árum.

Það eru Norðmenn sem fara fyrir friðargæsluliðinu á Sri Lanka og í gær sendu þeir frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem uppreisnarmönnum Tamíla og stjórnvöldum var kennt um áframhaldandi öldu ofbeldis í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×