Innlent

Mannréttindaskrifstofa sækist eftir öllu fénu

Mannréttindaskrifstofa Íslands hyggst sækjast eftir öllum þeim átta milljónum króna sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið veitir til verkefna á sviði mannréttindamála. Þá mun skrifstofan halda áfram baráttu sinni fyrir því að fá fast fjármagn á fjárlögum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur auglýst eftir umsóknum frá félagasamtökum og stofnunum vegna verkefna á sviði mannréttindamála. Átta milljónir króna verða til ráðstöfunar. Það fé rann þar til í fyrra beint til Mannréttindaskrifstofu Íslands en nú verður hún að sækja um styrki beint til ráðuneytisins ásamt öðrum samtökum.

Brynhildur Flóven, formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands,segir samtökin hafa fengið tvær milljónir í styrk frá dómsmálaráðuneytinu í fyrra en að reksturinn hafi að mestu verið fjármagnaður með stuðningi félagasamtaka og fyrirtækja.Verkalýðshreyfingin hafi tryggt ákveðið rekstrarfé svo ekki hafi þurft að loka. Svo hafi samtökin fengið styrk frá Reykjavíkurborg og eins fyrirtækjum eins og Baugi og Iceland Express.

Fjölmörg félagasamtök hvöttu Alþingi til að tryggja Mannréttindaskrifstofunni rekstarfé fyrir áramót en við þeirri beiðni var ekki orðið. Samtökin standa frammi fyrir fjárhagsvanda eins og í fyrra ef ekki fæst fé til rekstursins. Brynhildur segir að áfram verði sótt um styrki til fyrirtækja. Það hafi alltaf verið meiningin að gera það og það yrði viðbót við þær átta milljónir sem samtökin höfðu áður. Nú þurfi að róa enn fastar.

Brynhildur segir Mannréttindaskrifstofuna áfram munu berjast fyrir því að fá tryggt rekstrarfjármagn á fjárlögum. Það sé mjög mikilvægt og vonandi breyti Alþingi um stefnu í málinu.

Formaður Mannréttindaskrifstofunnar segir ljóst að sótt verði um alla þá upphæð sem dómsmálaráðuneytið auglýsir til ráðstöfunar. Samtökin geti svo sannarlega notað átta milljónir og gott betur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×