Innlent

Ódýrari tryggingar til skemmri tíma

Nýtt tryggingafélag, sem er í eigu Tryggingamiðstöðvarinnar, býður bílatryggingar til mánaðar í senn. Félagið ætlar að bjóða tryggingar allt að fjórðungi undir listaverði tryggingafélaganna.

Hið nýja félag heitir Elísabet og er alfarið í eigu Tryggingamiðstöðvarinnar. Að sögn rekstrarstjóra félagsins sker Elísabet sig út hvað þrjú atriði varðar. Tryggingatakar skuldbinda sig til mánaðar í senn, þeir geta sett trygginguna saman út frá eigin forsendum og starfsemin er öll á Netinu. Félagið hyggst bjóða lægri iðgjöld.

"Já, Elísabet er að bjóða lægri iðgjöld," segir Jón Páll Leifsson, rekstrarstjóri Elísabetar. "Það helgast aðallega af því að Elísabet er með mjög litla yfirbyggingu. Hún er eingöngu með starfsemi á netinu og það ásamt fleiri verður til þess að Elísabet getur boðið neytandanum tryggingaiðgjöld og bílalán á mjög hagstæðum kjörum."

Jón Páll segir stefnt að því að vera 25% undir listaverði hinna tryggingafélaganna.

Eins og fyrr segir á Tryggingamiðstöðin hið nýja félag og er þar með komin í samkeppni við sjálfa sig.

"Elísabet er svo sannarlega í samkeppni við alla á tryggingamarkaði og þar er Tryggingamiðstöðin engin undantekning," segir Jón Páll. "Elísabet er í raun og veru að bjóða allt aðra vöru á annan hátt þannig að þetta er kannski ekki alveg sambærilegt."

Ef viðskiptavinur veldur þremur tjónum á fimm árum, tvöfaldast iðgjöldin, en það er gert til að þurfa ekki að hækka iðgjöld hjá tjónalausum. Jón Páll segir ekki útilokað að boðið verði upp á fleira en bílatryggingar. "Fyrst í stað kemur Elísabet inn á bílalána- og bílatryggingamarkaðinn. Það er samt ekkert því til fyrirstöðu að Elísabet dafni og bjóði í framhaldinu upp á tryggingar á fleiri sviðum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×