Innlent

Ritstjóraskipti á DV

Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason hafa látið af störfum sem ritstjórar DV að eigin ósk. Í yfirlýsingu þeirra segir að nauðsynlegt sé að skapa ró um blaðið og koma á vinnufriði. Páll Baldvin Baldvinsson og Björgvin Guðmundsson eru nýir ritstjórar blaðsins.

Björgvin Guðmundsson hefur starfað sem fréttamaður á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Páll Baldvin Baldvinsson hefur verið menningarritstjóri DV. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á ritstjórninni enn sem komið er og ekki er hægt að greina frá breyttum áherslum nýrra manna að svo stöddu að sögn Páls Baldvins eða stefnu þeirra í nafn og myndbirtingum af fólki. Það muni hinsvegar koma í ljós fljótlega. "Þetta er spennandi verkefni," segir Páll Baldvin og rifjar upp að blaðið hafi alltaf verið umdeilt í 95 ára sögu sinni og forvera sinna. "Það hefur sjaldnast verið kyrrð í kringum þetta blað." Páll Baldvin segir að mjög eðlilegt þegar mannaskipti verða að menn líti yfir farinn veg, skoði hvað hafi farið miður og hvar megi gera betur.

Rúmlega 32 þúsund undirskriftir söfnuðust á netinu á tveimur sólarhringum þar sem ritstjórnarstefnu blaðsins var mótmælt. Páll Baldvin segir að ástandið á blaðinu hafi verið erfitt undanfarna daga og mikið álag á starfsfólki. Undir það tekur Bergljót Davíðsdóttir blaðamaður. "Ég held ég tali fyrir munn allra á ritstjórninni þegar ég segi að okkur hefur liðið ákaflega illa."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×