Innlent

Áhugahópur samkynhneigðra um trúarlíf harmar orð biskups

Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson
Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson MYND/Vilhelm

Áhugahópur samkynhneigðra um trúarlíf, ÁST, harmar orð biskups Íslands, herra Karls Sigurbjörnssonar, í sjónvarpsviðtali á NFS 2. janúar síðastliðinn þar sem hann ræddi um hjónabandið í tengslum við fram komna tillögu á Alþingi en hún lýtur að frjálsri heimild til forstöðumanna trúfélaga til að sinna þeim löggerningi að staðfesta samvist samkynhneigðra í kirkju.

Í yfirlýsingu frá ÁST segir að í áðurgreindu viðtali, sem og í áramótapredikun biskups, hafi hann hvatt til þess að löggjafarvaldið hugsaði sinn gang. Orðrétt hafi biskup Íslands sagt í viðtali við NFS að „... hjónabandið ætti það inni hjá þjóðinni að því sé ekki kastað á sorphaugana. Áhugahópur samkynhneigðra um trúarlíf segir í yfirlýsingu sinni að ekki sé hægt að túlka þessi ummæli biskupsins á annan hátt en þann að biskup líti á hjónabandið sem sorphaug ef hommar og lesbíur geti farið með heit sín og staðfest samvist sína í guðshúsum þjóðkirkjunnar.

Áhugahópurinn skorar á Alþingi að samþykkja þær breytingatillögur á lögum um staðfesta samvist og lögum um stofnun og slit hjúskapar, sem Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingar, hefur boðað í tengslum við frumvarp um lagabreytingar er varða réttarstöðu samkynhneigðra. Réttaráhrif tillagna hennar miði að því að prestar og forstöðumenn trúfélaga geti staðfest samvist homma og lesbía í guðshúsum sínum með löggerningi ef þeir óska eftir því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×