Erlent

Fá að kjósa blóðsugu

Kjósendur í Minnesotaríki í Bandaríkjunum fá að öllum líkindum tækifæri til að kjósa blóðsugu í embætti ríkisstjóra í kosningum sem fram fara í nóvember næstkomandi. Eða svo má ætla af því hvernig Jonathan Sharkey kynnir sig.

Sharkey tilkynnti á dögunum um framboð sitt til ríkisstjóra fyrir flokk blóðsuga, norna og heiðingja. Sjálfur segist Sharkey vera blóðsuga en hann vann um árabil fyrir sér sem fjölbragðaglímukappi líkt og fyrrum ríkisstjóri Minnesota, Jesse Ventura sem var kosinn ríkisstjóri 1998.

Það er ekki nóg með að Sharkey lýsi sér sem blóðsugu heldur er hann líka yfirlýstur djöfladýrkandi. "Ég er djöfladýrkandi sem hatar ekki Jesús," segir Sharkey. "Ég hata bara Guð, föðurinn." Hann segist þó munu virða öll trúarbrögð og reiðubúinn til að hengja boðorðin tíu á veggi opinbera bygginga sem og Wicca skjalið en í Bandaríkjunum hefur lengi verið deilt um hvort trúarleg tákn megi vera uppi í opinberum byggingum.

Barnaníðingar skyldu þó vara sig á að kjósa Sharkey því hann hét því að taka þá og morðingja af lífi með því að stjaksetja þá sjálfur á grasinu fyrir framan ríkisstjórasetrið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×