Erlent

Annað áfallið á hajj trúarhátíðnni

Síðasti dagur trúarhátíðar múslíma í borginni Mekka breyttist í blóðbað í dag. Talið er að yfir 300 manns hafi látist í miklum troðningi við brú þar sem fjölmargir höfðu safnast saman til að grýta veggi sem eiga að tákna djöfulinn.

Vel á þriðju milljón pílagríma hefur lagt leið sína til Sádí Arabíu í tilefni Hajj hátíðarinnar.

Ekki eru nema nokkrir dagar síðan gistiheimili í borginni hrundi og nærri áttatíu manns létust. Það sem átti að vera hátið trúar í hinni heilögu borg Mekka er því á góðri leið með að breytast í einn stóran harmleik.

Auk þeirra hundruða sem týndu lífi í dag slösuðust um eitt þúsund manns í troðningnum og mörgum er vart hugað líf.

Troðningurinn varð við Jamarat brúnna, þar sem fjöldi pílagríma safnast jafnan saman í lok Hajj til að kasta grjóti í Al-Jamarat veggina, sem tákna djöfulinn. Að sögn vitna mættust hópar fólks sem voru annars vegar á leiðinni að brúnni og hins vegar frá henni. Fólk hafi hreinlega borist til og frá og enginn ráðið neitt við neitt.

Grjótklastið í lok hátíðarinnar er jafnan stórhættulegur viðburður vegna alls þess mannfjölda sem safnast saman á litlu svæði.

Aðeins tvö ár eru síðan svipaður harmleikur og í dag átti sér stað á sama stað á sama tíma. Þá létust meira en 200 pílagrímar sem einmitt voru að grýta tákn djöfulsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×