Erlent

Glæpum fækkar í Ísrael

Glæpum hefur fækkað um meira en helming í Ísrael eftir að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, var fluttur á sjúkrahús í Jerúsalem í síðustu viku vegna alvarlegs heilablóðfalls. Segir lögreglan skýringuna vera þá að glæpamenn, líkt og aðrir, sitji límdir við sjónvarpsskjáinn og fylgist með líðan forsætisráðherrans.

Ísraelar bíða í ofvæni eftir fréttum af líðan Sharons sem haldið hefur verið sofandi eftir að hann fékk alvarlegt heilablóðfall á miðvikudag í síðustu viku. Glæpum hefur fækkað til muna í landinu en á meðan tilkynnt var um 865 innbrot í landinu frá miðvikudegi til föstudags í síðustu viku var tilkynnt um 1.739 innbrot á sama tímabili fyrir ári síðan. Lögreglan segir ástæðuna líklega vera að þá að glæpamennirnir líkt og aðrir landsmenn í Ísrael fylgist með baráttu forsætisráðherrans fyrir lífi sínu. Fjölmiðlar í landinu hafa ítrekað birt myndir af tveimur sonum hans, sem setið hafa við sjúkrabeð föður síns. Sharon er sagður hafa vaxið í augum almennings og líti margir upp til hans. Sharon er ekki lengur talinn í bráðri lífshættu og segja læknar hann hafa sýnt skýr merki um bata er hann hreyfði vinstri hönd sína í gær. Þá hafa þeir dregið úr deyfilyfjagjöf hans en viðbrögð Sharons eru prófuð ásamt því sem reynt er að vekja forsætisráðherrann. Svo virðist sem Ísraelar séu að gleyma hneyksli í kringum Omri Sharon, eldri sonar Sharons sem grunaður er um að hafa reynt að leyna ólöglegum fjárframlögum í kosningabaráttu föður síns árið 1999, þegar hann náði formennsku í Likud-flokknum og varð forsætisráðherraefni hans. Það virðist því vera að líðan Sharons sé það eina sem Ísraelar hugsi og tali um í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×