Erlent

Seinheppinn bankaræningi

Seinheppinn ræningi í Salt Lake City í Bandaríkjunum skipulagði rán illa og uppskar í samræmi við það.

Ræninginn stökk yfir afgreiðsluborðið, eins og sjá má á þessum myndum, hrinti gjaldkeranum og ógnaði henni með byssu. Síðar kom í ljós að vopnið var leikfangabyssa. Ræninginn neyddi gjaldkeranum að opna peningaskápinn. Þegar maðurinn var svo kominn með peningana í hendurnar lagði hann hins vegar ekki á flótta og óttaðist konan að hann ætlaði að nauðga sér. Hann batt fyrir augu hennar og munn en þá veitti hún mótspyrnu.

Meðan á þessu gekk hringdi síminn. Ræninginn reyndi þá að rífa hann úr sambandi en tóks það ekki og símtólið datt í gólfið. Það var eiginmaður gjaldkerans sem hafði hringt. Hann heyrði það sem gekk á og hringdi í neyðarlínuna. Ræninginn lagði skömmu síðar á flótta án þess að vinna konunni mein. Hún studdi þegar á neyðarhnapp og hringdi í neyðarlínuna.

Við skýrslutöku sagði konan að hún hefði kannast við ræningjann og kom þá uppúr dúrnum að hann hafði nokkrum dögum áður sótt um lán í bankanum. Hann hafði fyllt út alla viðeigandi pappíra og því var lögreglu í lófa lagið að hafa upp á manninum. Hann var handtekinn og ákærður fyrir rán og líkamsárás. Maðurinn játaði á sig glæpinn og sagðist hafa verið fjárþurfi og því hafi hann gripið til þessa örþrifaráðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×