Erlent

Ríkisstjórn Úkraínu situr áfram þrátt fyrir vantraust

Yushchenko, forseti Úkraínu, telur ákvörðun þingsins brjóta gegn stjórnarskrá landsins.
Yushchenko, forseti Úkraínu, telur ákvörðun þingsins brjóta gegn stjórnarskrá landsins. MYND/AP

Úkraínska þingið samþykkti í dag vantraust á ríkisstjórn landsins. Vantrauststillagan var samþykkt með 250 atkvæðum gegn 50.

Ástæðan fyrir vantraustinu er gassamningurinn sem úkraínska stjórnin gerði við Rússa. Hann hefur í för með sér að Úkraína þar að greiða hærra verð fyrir það gas sem hún fær. Tekist hafði verið á um verð á gasi um nokkurt skeið áður en samningar tókust en þá höfðu Rússar skrúfað fyrir flæði gass til Úkraínu. Stjórnarandstaðan hefur sagt samninginn bitna á hinum almenna neytanda og með honum hafi Rússar of mikil áhrif á gasinnflutning til Úkraínu.

Lagasérfræðingar í Úkraínu eru ekki á einu máli um hvort þingið geti rekið ríkisstjórnina. Viktor Yushchenko, forseti landsins, ætlar að láta stjórnarskrárdómstól landsins kveða úr um lögmæti atkvæðagreiðslunnar. Hann telur athafnir þingsins brjóta gegn stjórnarskrá og ætlar því reyna að fá atkvæðagreiðsluna ógilta.

Yushchenko tilkynnti svo á opinberri vefsíðu sinni í kvöld að ríkisstjórn Yekanurovs, forsætisráðherra, myndi sitja fram að þingkosningum 26. mars næstkomandi þrátt fyrir atkvæðagreiðslu þingsins í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×