Erlent

Íranar ætla að auðga úran á ný

MYND/AFP

Mohamed ElBaradei, yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar, greindi stjórn stofnunarinnar frá því í dag að Íranar ætluðu að hefja auðgun úrans á ný en þó ekki af fullum krafti.

Þetta gengur í berhögg við fyrri yfirlýsingar stjórnvalda í Teheran en fulltrúar þeirra hafa neitað því að hefja ætti framleiðslu á kjarnorkueldsneyti í Natanz-kjarnorkurannsóknarstöðinni.

Í morgun tilkynnti fulltrúi Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar að starfsmenn stofnunarinnar hefðu heimilað Írönum að fjarlægja innsigli sem hefur verið á rannsóknarstöðinni í tæp tvö ár. Það hafi svo verið gert í gærkvöldi undir eftirliti og aðeins ætti að gera rannsóknir í Natanz en ekki auðga úran eða framleiða kjarnorkueldsneyti.

Samkvæmt skýrslu El Baradeis ætla Íranar að koma fyrir sérstökum búnaði í rannsóknarstöðinni sem gerir þeim mögulegt að hreinsa úran til notkunnar í kjarnorkuverum eða til framleiðslu kjarnorkuvopna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×