Innlent

Lægra verð en áður hefur þekkst

Kanarí
Kanarí MYND/Vísir

Íslensk ferðaskrifstofa býður nú ferðir til Kanaríeyja í tvær vikur á tæpar tuttugu og sex þúsund krónur á manninn. Framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar segir þetta mögulegt vegna samstarfs við erlenda ferðaskrifstofu. Og hann segir fólk ekki þurfa að óttast óvenju mikið samneyti við skordýr eða skemmtanaglaða sígauna, þrátt fyrir hið lága verð.

Ferðaskrifstofan Langferðir, sem er umboðsaðili dönsku ferðaskrifstofunnar Apollo hér á landi, auglýsti í gær tveggja vikna ferðir til Kanaríeyja í febrúar á lægra verði en áður hefur sést. Um er að ræða þrjá verðflokka og er verðið í ódýrasta flokknum aðeins 25.900 krónur á manninn. Innifalið í þessu er flug og gisting, flugvallaskattar, ferðir til og frá flugvelli, gisting í tví- eða þríbýli án fæðis og íslensk fararstjórn. Tómas Þór Tómasson, framkvæmdastjóri Langferða, segir hægt sé að bjóða svo lágt verð vegna þess hve sterk staða Apollo sé á markaðnum.

Hótelin sem í boði eru eru sögð í gæðaflokki "tveir +" sem Tómas segir samsvara um það bil tveimur og hálfri stjörnu á þeim sem stjörnukvarða sem almenningur þekkir. Það sérstakasta við tilboðið er óneitanlega það að fólk veit áður en lagt er í hann að það mun gista á suðurhluta eyjunnar Gran Canaria, en það veit ekki í hvaða bæ og þaðan af síður hvaða hóteli það mun gista. Tómas segir þessa óvissu einnig stuðla að því að hægt sé að bjóða umræddar ferðir á lægra verði en áður hefur þekkst.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×