Innlent

Sveitarstjórnarmenn skilja loks alvarleika málsins

MYND/Vilhelm

Formaður Félags leikskólakennara leggur traust sitt á vinnuhóp um bætt kjör leikskólakennara og telur að vinna hans leiði til launahækkana og að leikskólakennarar hætti við að segja upp störfum. Vinnuhópurinn verður boðaður til fundar síðar í vikunni.

Í vinnuhópnum sem á að leita leiða til að bæta kjör leikskólakennara strax til að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir, verða fjórir menn; Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara, Birgir Björn Sigurjónsson frá Reykjavíkurborg, Karl Björnsson frá launanefnd sveitarfélaganna og einn leikskólastjóri úr Reykjavík, sem ekki hafði enn verið skipaður síðdegis.

Eiríkur Hjálmarsson, aðstoðarmaður borgarstjóra segir að hópnum verði sent fundarboð á morgun og að hann hefjist handa strax í þessari viku, enda sé skammur tími til stefnu, hópnum sé ætlað að skila niðurstöðum sínum á ráðstefnu sveitarfélaga um launamál sem haldin verður 20.janúar. Flest bendir til þess að leikskólakennarar ýmist haldi að sér höndum með áður boðaðar uppsagnir, eða hreinlega dragi þær til baka, líkt og þeir 12 leikskólakennarar á Sólbrekku á Seltjarnarnesi ætla að öllum líkindum að gera að sögn Ásdísar Þorsteinsdóttur, aðstoðarleikskólastjóra. Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara segist full bjartsýni á að kjör leikskólakennara verði bætt á næstu vikum, enda segist hún hafa skynjað á síðustu dögum að sveitarstjórnarmenn skilji nú hversu alvarlegt málið sé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×